Leikskólinn

Leikskólinn Holt varð til við sameiningu Fellaborgar og Völvuborgar í ágúst 2010.  Leikskólinn er staðsettur í tveim húsum, hlið við hlið í Völvufelli 7 og 9.  

Í Stóra-Holti, Völvufelli7, eru eldri börnin til húsa.  Þar eru þrjár deildar Sel, Bakki og Hóll.  Börnin eru u.þ.b. 55 talsins á aldrinum 3-6 ára.

Í Litla-Holti, Völvufelli 9, eru yngri börnin staðsett.  Þar eru tvær deildar, Berg og Fell.  Börnin eru u.þ.b. 45 á aldrinum 1-3 ára.

Í starfinu er lögð áhersla á málörvun, umhverfismennt og fjölmenningu. Við erum samstarfsaðilar í þróunarverkefninu "Okkar mál" en það byggir á samstarfi um menningu, mál og læsi í Fellahverfi. Verkefnið fékk Hvatningarverðlaun Skóla- og frístundasviðs í maí 2013 og Orðsporið nú í febrúar. Að auki erum við að vinna með tannvernd, nýjar leiðir í foreldrasamstarfi og innleiðingu á kennslu með spjaldtölvum.

 

______________________________________________________________________________________

 

Leikskólinn Völvuborg var opnaður 13.nóvember 1974, húsið er norskt timburhús og var flutt inn á vegum Viðlagasjóðs í tengslum við gosið í Vestmannaeyjum 1973.

Völvuborg er þriggja deilda leikskóli fyrir börn á aldrinum 1-6 ára.

Uppeldisstefna okkar byggir á Aðalnámskrá leikskóla, en það er leiðarvísir fyrir alla sem vinna að uppeldi og menntun. Einnig styðjumst við að nokkru leyti við kenningar John Dewy s, en samkvæmt þeim er aðaláhersla lögð á áhuga, virkni og reynslu barnsins.

Í Völvuborg leggjum við áherslu á umhverfismennt, húsið sjálft og nánasta umhverfi er kjörið til vinnu með börnum um umhverfismennt.

Við erum með stóran og fjölbreyttan garð, gras, mold, sand, steina og gróður. Svo erum við með matjurtagarð þar sem við setjum niður kartöflur og fleira grænmeti. Og alla afganga förum við með út í safnkassan, sem síðan skaffar okkur nýja mold í matjurtagarðinn okkar.

Svo tínum við ber í garðinum og búum til sultu á hverju ári, sem er rosalega vinsæl !

 

Fellaborg hóf starfssemi sína 16. nóvember 1973. Þar er unnið er eftir aðalnámskrá leikskóla, með áherslu á leik barnanna sem náms- og þroskaleið.

Við ræktum alhliða þroska barnsins sem felst meðal annars í líkams- og hreyfiþroska, tilfinningaþroska, vitsmunaþroska, mál- og félagsþroska, félagsvitund, fagurþroska, sköpunarhæfni, siðgæðisþroska og siðgæðisvitund.


Til grundvallar starfi okkar leggjum við hugmyndafræði Dewey sem segir að virkja eigi athafnaþörf barnsins og vekja áhuga þess. Barnið eigi að læra með því að framkvæma, það eigi að vera virkt og skapandi. Við styðjumst einnig við þær sálfræðikenningar sem tengjast vitþroskakenningu Piaget, þar sem megináherslan er ,,að virkni barnsins og þróun þess er árangur af samvirkni milli barnsins og umhverfisins". Piaget segir að leikurinn endurspegli vitþroska barnsins, að sérhvert vitþroskaskeið barnsins eigi sér hliðstæðu í leikatferli þess.

Við erum með könnunarleik fyrir yngstu börnin og nýtum okkur einnig hluta af hugmyndafræði ,,Reggio" sem kennd er við borgina Reggio Emilia á Norður Ítalíu, þ.e. könnunarnám fyrir eldri börnin. Að baki þessarar stefnu stendur maður að nafni Loris Malaguzzi. Megin markmið Malaguzzi var meðal annars að hvetja börnin til þess að nota öll skilningarvit sín, málin sín hundrað.

Prenta | Netfang