Leikskólastarf

 

Við erum með könnunarleik fyrir yngstu börnin og nýtum okkur einnig hluta af hugmyndafræði ,,Reggio" sem kennd er við borgina Reggio Emilia á Norður Ítalíu, þ.e. könnunarnám fyrir eldri börnin. Að baki þessarar stefnu stendur maður að nafni Loris Malaguzzi. Megin markmið Malaguzzi var meðal annars að hvetja börnin til þess að nota öll skilningarvit sín, málin sín hundrað.

Einnig hefur verið lögð áhersla á fjölmenningu. Nú erum við að vinna að þróunarverkefninu "Mannauður í margbreytileika". Vegna sérstöðu leikskólans í fjölmenningarlegu umhverfi höfum við unnið meira með fjölmenningarlega kennsluhætti. Það einkennist fyrst og fremst af því að við vinnum að því að gera umhverfi leikskólans þannig úr garði að það viðurkenni mismunandi uppruna fólksins sem kemur að leikskólanum þ.e. starfsfólki, foreldrum og börnum. Þetta felur einnig í sér að virða þjóðfélagsstöðu, heimilisaðstæður, trúarskoðanir eða hvað eina sem gerir okkur frábrugðin hvert öðru. Starfsfólki ber að rækta með börnunum virðingu fyrir öðrum og að hvert og eitt þeirra sé einstakt og hafi rétt til þess að vaxa og þroskast á eigin forsendum. Starfsfólk þarf að vera fyrirmynd í þessum efnum og þannig efla með sér fordómalaust hugarfar gagnvart hvert öðru, börnum og foreldrum. Við leggjum áherslu á að starfsfólk beri virðingu fyrir börnunum og sýni þeim hlýju og ástúð í allri umgengni. Börnin þurfa að fá ábyrga og faglega umönnun bæði líkamlega og andlega. Einnig þarf að aðstoða börnin við að virða þær reglur sem eru í gildi og að hjálpa þeim við að leysa ágreining á friðsamlegan og jákvæðan hátt. Aga skal börnin á faglegan hátt, ekki með ofsa og reiði heldur með staðfestu og ákveðni. Börn með óæskilega hegðun eiga að fá viðvörun en mega eiga von á að vera sett til hliðar ef hegðunin viðgengst. Barnið þarf að vita hvers vegna það er sett til hliðar og tími einverunnar skal taka tillit til aldurs og þroska barnanna.

 

 

 

 

 

 

 

Prenta |