Mannauður í margbreytileika

Þróunarverkefni sem starfsfólk í leikskólanum Fellaborg gerði á árunum 2006-2008.

1. Markmið:

  • Að gera leikskólann hæfari til þess að veita börnum og foreldrum þá þjónustu sem fjölmenningarlegur leikskóli ætti að hafa upp á að bjóða.
  • Að gera heimamál og heimamenningu barnanna sýnilegra í leikskólanum og að fjölmenningarlegir kennsluhættir nái að festast í sessi.
  • Að samræma hugmyndafræði leikskólans sem byggist á könnunarnámi við fjölmenningarlega starfhætti.
  • Að efla færni starfsfólks í að kenna íslensku sem annað mál.
  • Að vinna með viðhorf starfsfólks gagnvart ólíkum menningarheimum.
  • Að leggja áherslu á að þýða sem mest af upplýsingum fyrir erlenda foreldra á sem flestum tungumál.
  • Að bæta efni og aðbúnað leikskólans vegna fjölmenningarlegrar kennslu.
  • Að efla samvinnu við foreldra með það í huga að sérhvert barn fái kennslu við sitt hæfi og að þörfum þeirra sem einstaklinga sé mætt.
  • Að auka fræðslu í leikskólanum fyrir foreldra barnanna s.s. samskipti og viðhorf tengd ólíkum menningarheimum og fræðslu um uppeldi ungra barna almennt.

2. Hvers vegna þróunarverkefni í Fellaborg ?
Undanfarin ár hefur fjöldi barna af erlendum uppruna aukist í Fellaborg auk þess sem mannlíf leikskólans í heild hefur orðið fjölbreyttara. Staðreyndin er sú að skýra stefnu hefur vantað af hálfu yfirvalda varðandi það hvernig allir, óháð menningu og uppruna, eigi að geta búið og starfað saman í virku samfélagi. Af þeim sökum hefur leikskólinn okkar sem og aðrir leikskólar í landinu ekki verið nægilega undirbúnir undir þann menningarlega fjölbreytileika sem hefur þróast í okkar samfélagi.
Undanfarin tvö ár hefur starfsfólk leikskólans samt sem áður unnið mikla forvinnu í að aðlaga leikskólann að þessum miklu breytingum sem hafa átt sér stað. Tilgangur þessa þróunarverkefnis er að gera leikskólann hæfari til að mæta þörfum allra barna og foreldra sem koma að leikskólanum. Nauðsynlegt er að auka fræðslu fyrir starfsfólk og foreldra auk þess að bæta þjónustu við börn og foreldra. Með aukinni fræðslu er hægt að koma í veg fyrir fordóma og vanþekkingu á mismunandi menningarheimum auk þess sem foreldrar og starfsfólk verða meðvitaðri um hvaða uppeldisaðferðir og kennsluhættir séu vænlegastir í margmenningarlegu samfélagi.Verkefnið hefur því gríðarlegt gildi fyrir leikskólann og fleiri leikskóla í landinu þar sem hægt væri að miðla þekkingu og reynslu starfsfólksins til annarra sem eru að fást við svipaða hluti. Þetta þróunarverkefni hefur einnig mikið gildi fyrir hverfið sem við störfum í. Okkar von er sú að foreldrar öðlist meira öryggi gagnvart leikskólanum og finni að það getur leitað til starfsfólks varðandi ráðgjöf sem snýr að uppeldi barna sinna.
Með því að haga námi barnanna samkvæmt þeirra þroska og getu jafnframt því að taka tillit til aðstæðna þeirra og bakgrunns er verið að viðurkenna þau sem sjálfstæða einstaklinga. Ávinningurinn getur verið sá að börnin öðlist sjálfstraust og öryggi. Þetta leiðir til þess að þau verða betur í stakk búin til að takast á við grunnskólaárin og framtíðina sem ábyrgir þjóðfélagsþegnar í samfélagi sem tekur stöðugum breytingum.

3. Hverjir vinna verkið?
Sólveig Dögg Larsen, verkefnisstjóri
Sigrún Ásta Gunnlaugsdóttir, leikskólastjóri
Allir leikskólakennarar og leiðbeinendur, samtals 15 manns.
Hanna Ragnarsdóttir, lektor við KHÍ.
Fríða B. Jónsdóttir, leikskólaráðgjafi.
Ingibjörg Hafstað frá Alþjóðhúsi.
Aðrir fyrirlesarar og samstarfsfólk erlendis.
Börn í leikskólanum Fellaborg, u.þ.b 55 talsins.
Foreldrar barna í Fellaborg.

4. Lýsing á framkvæmd verkefnisins
Verkefnisstjóri innanhúss er Sólveig Dögg Larsen, aðstoðarleikskólastjóri og er hún í 40% starfi sem verkefnisstjóri. Verkefnisstjóri hefur það hlutverk að leiða þróunarstarfið áfram, boða til funda og finna til fólk til að halda fyrirlestra. Verkefnisstjóri er tengiliður leikskólans við samstarfsaðila verkefnisins. Einnig er hann leiðbeinandi í starfshópnum með því að aðstoða við framkvæmd verkefna inni á deild auk þess að útvega lesefni og fróðleik sem nýtist í viðfangsefninu.
Stýrihópur hefur verið skipaður sem vinnur að undirbúningi og skipulagsvinnu innanhúss. Í þeim hópi er leikskólastjóri, verkefnisstjóri og 3 deildarstjórar. Samstarfsaðilar og ráðgjafar eru Hanna Ragnarsdóttir, lektor við Kennaraháskóla Íslands, Ingibjörg Hafstað hjá Alþjóðahúsi og Fríða B. Jónsdóttur, leikskólaráðgjafi. Þessi hópur hefur komið okkur af stað í vinnunni, bent okkur á lesefni og verða ráðgjafar í verkefninu áframhaldandi.

5. Tímaáætlun
Undirbúningur verkefnisins hófst fyrir alvöru í ágúst 2006 og því verður lokið haustið 2008. Þá er áætlað að skýrsla lokamats verði tilbúin áramótin 2008/2009. Tímabilinu er skipt niður í 3 lotur sitthvort árið, 6 lotur í heild. Fyrsta lota verður í ágúst- desember, önnur lota í janúar-maí og þriðja lota maí- ágúst.

6. Fyrsta lota (10ágúst-desember 2006)
Tímaáætlun stóðst nokkurn veginn. Stýrihópur hittist tvisvar en áætlað var að hafa þrjá fundi. Þrír starfsmannafundir voru áætlaðir á tímabilinu ásamt fundi með samstarfsaðilum. Hópurinn hitti samstarfsaðilana á námskeiðsdegi og hefur svo haldið tvo fundi síðan án samstarfsaðila.
Samstarfsaðilar og verkefnisstjóri hittust á nokkrum fundum í haust en þeir fundir hefðu mátt vera oftar þegar leið á tímabilið. Stefnt var að því að hafa þá fundi á 6-7 vikna fresti í næstu lotu.
Við höfðum samband við fjölmenningarlegan leikskóla í London sem heimsóttur var í námsferð starfsfólks vorið 2005. Við óskuðum eftir samstarfi og fengum jákvæð viðbrögð. Tilgangur samstarfsins er að miðla þekkingu og reynslu milli leikskólanna tveggja sem tilheyra svipuðu hverfi. Einnig er gaman að vekja börnin til umhugsunar um að erlendis séu börn að ganga í leikskóla eins og þau. Elstu börnin sömdu bréf sem sent var til elstu barna í enska leikskólanum.
Í framkvæmdaáætlun var ákveðið að byrja á því að vinna með viðhorf og hugmyndir starfsfólksins varðandi ólíka menningarheima. Til þess að hægt sé að vinna með fjölmenningarlegt starf í leikskólanum þarf starfsfólk að vera meðvitað um eigin skoðanir, gildi og viðmið og vera tilbúið til að endurskoða kennsluaðferðir sínar í samræmi við það. Þetta höfum við gert með því að hittast á starfsmannafundum og ræða lesefni sem fólk hefur lesið í samræmi við þetta efni. Einnig hafa umræður skapast í aðstæðum þar sem reynir á mismunandi gildi og viðhorf fólks. Starfsfólk hefur verið hvatt til að skoða sinn eigin huga hvað varðar ólíka eiginleika og bakgrunn fólks.
Stefnt var að því að endurskoða leikefni og búnað leikskólans til að mæta þörfum blandaðs barnahóps og í kjölfar þess var keypt ferðabrúða fyrir hverja deild sem fer heim með börnunum yfir nótt og foreldrar skrifa í bók það sem barnið og brúðan höfðu fyrir stafni. Þetta er gert til að kynna mismunandi heimamenningu barnanna og börnin hafa gaman af að bera ábyrgð á brúðunni. Einnig hefur verið keypt tússtafla sem auðveldar starfsfólki samverustundir því lagt hefur verið áhersla á fjölbreyttar samverustundir til að ná til allra barnanna. Tvítyngd börn eiga oft erfitt með að skilja langar og erfiðar sögur.
Fáni var útbúinn sem einkenni leikskólans og var honum flaggað í fyrsta sinn á nýrri flaggstöng á afmæli leikskólans þann 14.nóvember.
Í markmiðum er getið þess að foreldrasamstarf verður eflt. Foreldrafundur var haldinn 17.október þar sem þróunarverkefnið var kynnt. Í boði voru alþjóðlegar veitingar sem foreldrar og starfsfólk hafði komið með. Við munum leita leiða til að vinna með árangursríkari hætti í samstarfi við foreldra og stuðla að fræðslu til þeirra varðandi fordóma og uppeldi ungra barna almennt. Við viljum bjóða upp á meira af þýddu efni og upplýsingum fyrir foreldra og bjóða upp á fyrsta viðtal heim til barna sem eru að byrja í leikskólanum. Við höfum reynt að þýða flestar tilkynningar sem koma upp á ensku og fyrsta viðtal heima er núna alltaf í boði þegar barn byrjar. Þessi viðtöl hafa gefist vel og skapast hafa góð tengsl milli starfsfólks, foreldra og barna í kjölfar þess.
Eins og fyrr er getið voru tveir starfsmannafundir í fyrstu lotu auk þess að haldinn var námskeiðsdagur í haust þar sem Hanna Ragnarsdóttir, Fríða Bjarney og Ingibjörg voru með fyrirlestra og umræður um viðhorf og samskipti í fjölmenningarlegu samfélagi. Nokkrir starfsmenn mættu einnig á málþing í Fella- og Hólakirkju um haustið sem bar yfirskriftina ,,Öll eitt en ekki eins".

7. Önnur lota (10janúar-maí 2007)
Í annarri lotu var stefnt að því að nýta þekkingu á margbreytileika og tvítyngi í starfinu með börnunum með það að markmiði að auka víðsýni þeirra og umburðarlyndi sem og að þjálfa börn í tungumálinu sem eiga íslensku sem annað mál.
Lotan hófst með því að loðtafla var tekin í notkun og reynt að bæta úr úrvali í loðtöflusögum. Fundur var með stýrihóp innan húss og ákveðið að leggja áherslu á tvítyngisfræðslu og kennslu barna með íslensku sem annað mál. Námskeiðsdagar áætlaðir í febrúar. Stýrihópur innan húss átti að hittast þrisvar en fundaði einu sinni utan vinnutíma og svo einu sinni á deildarstjórafundi.
Í upphafi verkefnisins var sent bréf til Kate Greenaway, leikskóla í London en ekki hefur borist svar frá þeim.
Í bígerð var ferð verkefnisstjóra til samstarfsskólans í London. Áætlað var að taka 1-2 starfsmenn með í þá ferð þar sem leikskólinn verður skoðaður og leitað ráða varðandi kennslu barna með 2-3 tungumál. Ákveðið var að hætta við þá ferð eða fresta henni.
Í lotunni fór af stað vinna með handbókina Staða- framfarir- framhald sem notuð er til að meta framfarir tvítyngdra barna í íslensku. Matslistana er einnig hægt að nota með börnum sem hafa íslensku sem sitt móðurmál. Þetta er gert vegna þess markmiðs sem sett var í upphafi að sérhvert barn fái kennslu við sitt hæfi og að þörfum þeirra sem einstaklinga sé mætt. Þessi vinna fór heldur hægt af stað og vegna mikilla anna gat verkefnisstjóri ekki sinnt þessu eins og til stóð.
Í febrúar sóttu verkefnisstjóri og leikskólastjóri fyrirlestur um leikskólann og trúarbrögð í Breiðholtskirkju þar sem Sr. Sigurður Pálsson talaði. Þá kom upp sú hugmynd að fá Sigurð á starfsmannafund til að ræða samskipti fólks með ólík trúarbrögð.
Námskeiðs- og skipulagsdagar voru í febrúar. Fyrri daginn kom Elsa Sigríður Jónsdóttir frá K.H.Í með kennslu um tvítyngi og mikilvægi móðurmáls. Seinni daginn kom Hulda Karen Daníelsdóttir frá Þjónustumiðstöð Miðborgar og Hlíða. Hún fór í praktískar aðferðir til að kenna íslensku sem annað mál og lét hópinn koma með hugmyndir. Í rauninni dró hún fram þá þekkingu sem býr hjá starfsfólkinu um aðferðir til að kenna íslensku sem annað mál og þetta vakti hópinn upp og hvatti til frekari vinnu með börnunum. Í kjölfarið undirbjó hópurinn efni til að nota í kennslunni, t.d. sögupoka sem innihalda ýmsa muni sem hægt er að nota til að gera frásögnina líflegri. Þá er sagan plöstuð í pokanum og svo eru munirnir sem fylgja hverri sögu í sama poka.
Í markmiðum verkefnisins kemur fram að við viljum samræma hugmyndafræði leikskólans, sem byggist á könnunaraðferð, við fjölmenningarlega starfshætti.
Í febrúar var opið hús í tilefni af vetrarhátíð og notað var tækifærið til þess að sýna verk barnanna eftir vinnu með tannverndarþema. Börnin höfðu unnið eftir hugmyndum könnunaraðferðarinnar eins og gert er í hópastarfi og gaman var að sjá hvernig hóparnir tóku mismunandi á viðfangsefninu. Til dæmis hafði einn hópurinn klippt út myndir af mismunandi munnum og tönnum og límt á blað til að sýna fram á hve fólk er ólíkt. Þarna náðist að tengja fjölmenninguna við könnunaraðferðina eins og markmiðið hafði verið. Þetta var gert áfram í þema um hús seinna um veturinn þar sem börnin fundu til mismunandi gerðir af húsum. Á opna húsinu sungu börnin Meistari Jakob á íslensku, ensku, pólsku og frönsku.
Á einni deildinni var tekið upp á að hafa ,,stjörnu vikunnar" en þá er eitt barn í senn stjarna í eina viku og fær þá að vera í sviðsljósinu. Þetta hefur gefist vel og hefur eflt foreldrasamstarf til muna á deildinni þar sem foreldrar hafa til dæmis komið í heimsókn einn dag og miðlað einhverju með börnunum. Ein mamman kom með myndasýningu í sjónvarpinu, önnur kom með myndbandsupptöku frá leikskóla barnsins frá því þau bjuggu í Frakklandi. Ein mamman kom í heimsókn með eðlu sem fjölskyldan á og sýndi börnunum en einnig kom hún með uppáhalds tónlistardisk barnsins og leyfði börnunum að hlusta á. Þarna náðist eitt af markmiðunum sem var að efla foreldrasamstarfið og viðurkenna heimamenningu barnanna.
Í lotunni hafa verið tveir fundir með ráðgjöfum en áætlað var að hafa þrjá. Fyrri fundurinn var í janúar og þá var m.a. rætt um einstaklingsnámskrár sem leikskólinn þurfti að útbúa og senda til að fá auka fjármagn fyrir börn af erlendum uppruna. Hópurinn veitti ráðgjöf um námskrárnar og í framhaldi af því útbjó verkefnisstjóri þær. Þar með náðist hluti af því markmiði þróunarverkefnisins að útbúa einstaklingsnámskrár fyrir börnin í leikskólanum. Seinni fundurinn var í mars en þar var m.a. rætt um hvaða aðferðir væri hægt að nota með starfshópnum til að opna trúarbragðaumræðuna. Ýmsar hugmyndir komu fram um hvernig væri hægt að vinna með börnunum til að kynna heimamenningu þeirra og einnig voru gefin ráð varðandi samskipti við fólk frá ólíkum menningarheimum.
Starfsmannafundur var haldinn seinnihlutann í marsmánuði en þá hafði starfsfólk lesið efni sem var lauslega þýtt úr bókinni Anti-discriminatory Practice eftir Rosalind Millam. Efnið fjallaði um trú og trúarbrögð. Hópnum var skipt í fjóra litla hópa og teknar fyrir klípusögur úr sömu bók. Starfsfólk tókst á við spurningarnar með þekkinguna úr lesefninu í huga. Fyrirhugaðir voru fimm starfsmannafundir og má segja að námskeiðsdagarnir standi fyrir einhverjum þeirra. Þörf í leikskólanum hefur gert það að verkum að við þurftum að nýta starfsmannafundina í apríl og maí í önnur mál sem tengjast ekki verkefninu.
Til stóð að Fríða B. Jónsdóttir kæmi inn sem ráðgjafi á deildarfundi einu sinni á tímabilinu. Það hefur ekki verið framkvæmt vegna aðstæðna í húsinu en stefnt er að því næsta vetur að framfylgja því markmiði.
Þess má geta að í maí fékk starfsfólk leikskólans hvatningarverðlaun Leikskólaráðs fyrir þróunarverkefnið og var sú viðurkenning mikil hvatning til að halda áfram og láta ekki deigan síga.

8. Næstu skref og framtíðaráform
A. Þriðja lota (10maí-ágúst 2007)
Fer í að viðhalda því starfi sem hefur verið sett á fót með börnunum og áframhaldandi kennsla til þeirra. Mat verkefnisstjóra á því sem á undan er gengið er gert og lögð drög að næsta starfsári.
 
B. Fyrsta lota á síðari ári verkefnisins (10sept.-des 2007)
Fyrirlestur í leikskólanum fyrir foreldra um uppeldi barna almennt. Á þeim fyrirlestri viljum við fá túlka fyrir þá foreldra sem þurfa.
Áframhaldandi vinna með handbókina Staða- framfarir- framhald sem notuð er til að meta framfarir tvítyngdra barna í íslensku. Matslistana er einnig hægt að nota með börnum sem hafa íslensku sem sitt móðurmál.
Einstaklingsnámskrá gerð fyrir hvert einasta barn í leikskólanum og þeim framfylgt inni á deildum með því að fara yfir þær tvisvar sinnum á vetrinum til að skrá niður framfarir barnanna og næstu markmið.
Fríða B. Jónsdóttir verður beðin um að koma á deildarfundi og ráðleggja starfsfólki um vinnuna með börnunum.
Stjarna vikunnar tekin upp á hinni eldri deildinni og fleiri aðferðir notaðar til að kynna heimamennigu barnanna til dæmis með því að búa til bók þar sem börnin segja frá mömmu sinni í máli og myndum (10eða öðru sem starfsfólk ákveður með tilliti til þess að öll börnin geti tekið þátt).
Trúarbragðaumræða starfsfólks heldur áfram. Sr. Sigurður Pálsson verður beðinn um að vera með fyrirlestur og ræða um viðhorf okkar til mismunandi trúarbragða og hvernig við getum bætt samskipti okkar til hvers annars með tilliti til mismunandi skoðana og lífsstíls.
Bókakista útbúin þar sem foreldrar geta fengið lánaðar bækur heim til að lesa með börnum sínum. Bækurnar verða á íslensku en reynt að fá einnig bækur á ýmsum tungumálum.
Áætlaðir tveir til þrír fundir með ráðgjafahóp.
Áætlaðir tveir fundir með stýrihóp innan húss.
Áætlaðir tveir starfsmannafundir.
Endurmat verður gert í september á þeirri vinnu sem að baki er og munu foreldrar og starfsfólk taka þátt í því.
Síðustu mánuði verkefnisins verður gert lokamat og út frá því ræddar leiðir að því að festa þessa nýju starfshætti í sessi. Í lok verkefnisins mun Hanna Ragnarsdóttir gera rannsókn á vegum Kennaraháskólans er varðar fjölmenningu í leikskólum.

pdfHér er hægt að nálgast loka skýrslu Þróunarverkefnisins Mannauður í margbreytileika

Prenta | Netfang